„Mæðgur í áflogum“ viðtal

Það er ekki oft sem mæðgur sækja sér kunnáttu til að læra að fljúgast á, en það á við um guðfræðinginn Jónu Lovísu Jónsdóttur og dóttur hennar, Kristínu Ástu Guðmundsdóttur.

Það var Jóna Lovísa sem smitaði táninginn Kristínu Ástu af júdóbakteríunni.   
   „Við erum ekki sérstaklega líkar í okkur en eigum báðar sameiginlegt að vera slétt sama þótt við uppskerum marbletti eða einstaka skrámur“ segir Jóna Lovísa sem byrjaði að æfa júdó á sextánda árinu.   
   “ Ég æfði með hléum þar til ég varð 23 ára en hætti þá alveg þar til ég tók upp þráðinn 36 ára.  Það reyndist jafn auðvelt og að hjóla, en ég hafði alltaf stundað mikla hreyfingu og var í góðu formi, “ segir Jóna Lovísa sem játar þó á sig smá stirðleika í byrjun.  
   “ Júdó er trúlega besta alhliða íþrótt sem völ er á.  Hún þjálfar allan líkamann, allt niður í fingur og tær, og í raun vinnur maður samtímis með huga og líkama því mikla einbeitingu þarf í júdóglímu, “ segir Jóna Lovísa og bætir við að júdó sé afar vaxtarmótandi fyrir kvennlíkamann, ekki síður en líkama karla.
   “ Þetta eru vissulega slagsmál en áflog sem fara eftir mjög ströngum reglum.  Það er sjaldgæft að maður meiði sig, fær kannski marbletti og annað smotterí, en auðvitað er alltaf hætta á meiðslum í júdói  eins og í öðrum íþróttum, hvort sem það eru bardagaíþróttir eða ekki.  Júdó hentar vel minni skapgerð.  Þetta er mikið kontaktsport; maður snertir aðra og nær betri tengslum við mótherjana en til dæmis í hópíþróttum,“ segir Jóna Lovísa sem æfir þrisvar í viku, líkt og dóttirin Kristín Ásta.
   “ Við höfum lítið glímt saman, mæðgurnar og höldum ekki júdósýningar heima. Ég er ekki viss um hvort ég myndi vilja standa í slagsmálum við dóttur mína,“ segir Jóna Lovísa kímin, en Kristín Ásta greindist með sykursýki sjö ára og hefur ekki látið það stoppa sig hvað varðar íþróttir eða annað. 
   “ Fyrir um ári greindist hún líka með ofvirkan skjaldkirtil og hefur verið í meðferð við því síðan.  Þrátt fyrir töluverð óþægindi hefur hún haldið sínu striki og verið dugleg að æfa og keppa; nú síðast í þyngdarflokknum -48 kg á Alþjóðaleikum ungmenna sem haldnir voru hér á landi í vor,“ segir Jóna Lovísa, en stigsmunur er á færni þeirra mæðgna í júdóinu sem einkennd er með mismunandi litum beltum við hvítan júdóbúninginn.
   „Litastigin eru gulur, appelsínugulur, grænn, blár, brúnn og svartur, en til þess að komast hærra í beltakerfinu þarf að standast ákveðnar reglur og próf.  Ég er nú með bláa beltið og Kristín Ásta það appelsínugula,“ segir Jóna Lovísa sem er Íslandsmeistari í -52 kg flokki kvenna.
   “ Í fyrra keppti ég í -52 kg flokki kvenna og varð Íslandsmeistari.  Það er í sjálfu sér  ekkert merkilegt nema fyrir það að stelpurnar sem ég er að keppa við, bæði hér heima og erlendis, eru allar á tvítugs- og þrítugsaldri, og því gaman að ná þessu á gamalsaldri,“ segir Jóna Lovísa brosmild, en fyrr á árinu keppti hún á Smáþjóðaleikunum í Mónakó þar sem hún tapaði glímu sinni um bronsið, en vann bronspening með liði sínu á sama móti.
   “ Ég veit ekki hvort glíman nýtist mér sem guðfræðingi en krökkunum finnst þetta voða töff,“ segir Jóna Lovísa sem síðastliðinn vetur tók við starfi framkvæmdastjóra Æskulýðsstarfa þjóðkirkjunnar og skipuleggur nú landsmót æskulýðsfélaga á Hvammstanga í október.
   „Við viljum efla starfið úti á landi og koma með ferska starfssemi í þetta ungliðastarf.  Eins erum við á förum til Afríku með tuttugu manna hóp í haust, en sú ferð er samstarfsverkefni ÆSKÞ og Kristniboðssambandsins, því við viljum gjarnan vera í samstarfi við aðra aðila sem vinna að svipuðum málum og markmiðum,“ segir Jóna Lovísa sem útskrifaðist sem guðfræðingur í Svíþjóð.
   “ Ég hef alltaf verið trúuð og fann mig knúna til að nema guðfræði.  Starfið býður upp á marga möguleika.  Mér þykir gott að vinna með fólki og finnst styrkur í að hafa guð með mér í því.“

Viðtalið tók Þórdís Gunnarsdóttir blaðamaður Fréttablaðsins.  Birt  í Fréttablaðinu 29. ágúst 2007.  Birt á heimasíðu Júdodeildar Umf. Selfoss með góðfúslegu leyfi ritstjórnar Fréttablaðsins og Jónu Lovísu Jónsdóttur.